Um Gagnahlaðborðið

Gagnahlaðborðið er miðlunarstaður þar sem hægt er að skoða opin gögn borgarinnar og lesa greiningar á mannamáli. Fyrir áhugasöm er svo hægt að fletta upp í opnum gagnasöfnum borgarinnar í Gagnagáttinni, hlaða gögnum niður og nýta í ýmis verkefni. Okkar markmið er að stuðla að gagnsærri upplýsingamiðlun og að öll geti nýtt sér gögn borgarinnar á aðgengilegan hátt.

Fyrsta útgáfa Gagnahlaðborðsins fór í loftið í febrúar 2023. Vefurinn er í vinnslu og á komandi misserum munu fleiri málaflokkar og ítarlegri gögn bætast við.

Gögn á mannamáli

Gagnalæsi

Við viljum setja gögn borgarinnar fram á einfaldan og auðskiljanlegan hátt. Notendur Gagnahlaðborðsins ættu að geta kynnt sér gögnin án þess að vera sérfræðingar í greiningu gagna eða starfsemi borgarinnar.

Myndrænar frásagnir

Með því að blanda saman textalýsingum, myndum og tölfræðigögnum er ætlunin að gera gögn borgarinnar áhugaverð og skemmtileg.

Gagnavegferðin

Sögu Gagnahlaðborðsins má rekja til ársins 2019 þegar borgin réðst í umfangsmikla vegferð stafrænna umbreytinga. Strax í upphafi varð ljóst að það að tryggja gæði, áreiðanleika og aðgengi að gögnum borgarinnar myndi gegna lykilhlutverki í því að taka upplýstar ákvarðanir. Gott aðgengi að gögnum borgarinnar skapar líka tækifæri fyrir utanaðkomandi aðila að nýta sér gögnin til rannsókna, nýsköpunar, samfélagsrýni eða gamans.

Hvað vilt þú sjá á Gagnahlaðborðinu?

Ert þú með hugmynd, ábendingu eða viltu bara segja hæ? Sendu okkur línu á gagnahladbordid@reykjavik.is.