Borgarstjórnarkosningar í Reykjavík
Í Reykjavík eru haldnar borgarstjórnarkosningar á fjögurra ára fresti og hafa allir íslenskir ríkisborgarar, 18 ára og eldri, sem eiga lögheimili í Reykjavík kosningarétt. Auk þeirra hafa erlendir ríkisborgarar kosningarétt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Aðgengileg gögn um borgarstjórnarkosningar í Reykjavík eru frá 1986-2022, en á því tímabili hefur verið kosið 10 sinnum.
Labbaðu á kjörstað
Undanfarin ár hefur Reykjavíkurborg markvisst unnið að því að fjölga þeim stöðum þar sem hægt er að kjósa. Það er gert til að bæta þjónustu í nærumhverfi fólks, draga úr umferð í borginni á kjördag og styðja við vistvænar samgöngur. Enda er fátt hátíðlegra en að hóa saman fjölskyldunni, ganga fylktu liði á kjörstað og taka þátt í að móta framtíð borgarinnar.
Fjöldi kjörstaða eftir árum
Sveimaðu yfir grafið til að sjá nánari upplýsingar
Kjördeildum fjölgar
Kjörstöðum borgarinnar er skipt upp í kjördeildir eftir heimilisföngum. Í hverri kjördeild eru að jafnaði skráðir um 1.000 kjósendur. Eftir því sem borgin stækkar og kjörstöðum fjölgar eykst að sama skapi fjöldi kjördeilda.
Fjöldi kjördeilda eftir árum
Sveimaðu yfir grafið til að sjá nánari upplýsingar
Kjörsókn á niðurleið
Þátttaka í kosningum er almennt á niðurleið á Vesturlöndum. Þar er Ísland engin undantekning og kjörsókn hefur aldrei verið minni en undanfarin ár. Árið 2022 var kjörsókn í Reykjavík til dæmis 61%, samanborið við 89% kjörsókn árið 1994.
Kjörsókn eftir árum
Sveimaðu yfir grafið til að sjá nánari upplýsingar
En hvernig kjósa kynin?
Kjörsókn karla og kvenna hefur haldist nokkuð jöfn yfir árin. Konur eru þó alla jafna örlítið duglegri að mæta á kjörstað. Lög um kynrænt sjálfræði gerðu fólki kleift að hafa kynskráningu sína hlutlausa. Þau tóku gildi árið 2019 svo að fyrstu kosningarnar þar sem til eru tölur um kjörsókn kynsegin fólks eru frá árinu 2022.
Kjörsókn eftir kynjum og árum
Sveimaðu yfir grafið til að sjá nánari upplýsingar
Hversu mörg mega kjósa?
Þrátt fyrir að kjörsókn hafi minnkað undanfarin ár hafa aldrei verið fleiri sem mega kjósa. Íbúum fjölgar yfirleitt milli kosninga en fjöldi kjósenda á kjörskrá tók stökk milli kosninga 2018 og 2022 vegna þess að árið 2022 höfðu tekið gildi ný kosningalög sem útvíkka kosningarétt erlendra ríkisborgara. Nú mega erlendir ríkisborgarar kjósa eftir að hafa búið hér í 3 ár, en ekki 5 eins og áður var. Ríkisborgarar Norðurlandanna eru á kjörskrá ef þeir eru með lögheimili hér, óháð lengd búsetu.
Fjölda kjósenda á skrá eftir árum
Sveimaðu yfir grafið til að sjá nánari upplýsingar
Fleiri kjósa að kjósa utan kjörfundar
Hægt er að kjósa utan kjörfundar ef fólk getur ekki eða vill ekki kjósa á kjördaginn sjálfan. Á Íslandi er hægt að kjósa utan kjörfundar hjá sýslumanni og við sérstakar aðstæður inni á stofnunum, til dæmis á sjúkrahúsum og í fangelsum eða jafnvel í heimahúsi. Undanfarin ár hefur mælst nokkur aukning á kosningu utan kjörfundar og hefur hún aldrei verið hærri en árið 2022.
Hlutfall utankjörfundaratkvæða af greiddum atkvæðum eftir árum
Sveimaðu yfir grafið til að sjá nánari upplýsingar
Ítarefni
Viltu vita meira um kosningar eða aðra starfsemi borgarinnar? Í Gagnagáttinni getur þú flett upp í opnum gagnasöfnum borgarinnar og hlaðið þeim niður.
Útgáfur gagnasögu
Útgáfa 1.0 2023-06-20 - Gagnasaga birt
Væntanlegt - Uppfærð gögn í kjölfar borgarstjórnarkosninga 2024
Aðrir málaflokkar
- Grunnskólar Hversu mörg börn sækja grunnskóla í Reykjavík?
- Leikskólar Hver er þróun biðlista í leikskólana?
- Frístundaheimili Hver eru ásóknin í frístundaheimili borgarinnar?
- Fjárhagsaðstoð Hvað fá margir fjárhagsaðstoð í Reykjavík?
- Opin fjármál Hver er munurinn á Aðalsjóði og Eignasjóði?
- Sjálfbærnivísar Hvernig bætum við lífsgæði íbúa?
- Sundlaugar Hvenær er best að fara í sund?
- Hverfin í borginni Hvað er fjölmennasta hverfið?