Rusl í Reykjavík

Undanfarin ár hefur borgin tekið skref í átt að aukinni flokkun og endurvinnslu úrgangs og nú eru öll heimili með fjórar tunnur til að flokka í; almennt sorp, pappa, plast og matarleifar. Úrgangur er hráefni sem hægt er að endurvinna og með því að flokka förum við betur með verðmæti og höfum jákvæð áhrif á umhverfið.

Tímalína flokkunar í Reykjavík

2009 - Íbúum gefst kostur á bláum tunnum fyrir pappa.

2015 - Íbúum gefst kostur á grænum tunnum fyrir plast.

2022 - Íbúum gefst kostur á brúnum tunnum fyrir matarleifar.

2023 - Íbúum er skylt að flokka plast, pappa og matarleifar við heimili.

Borgarbúar henda minna og flokka meira

Á myndinni má sjá hve mörgum kílóum af úrgangi hver íbúi Reykjavíkur hendir við heimili sitt að meðaltali á ári og þróun magnsins milli ára. Magnið sem hver íbúi hendir að meðaltali árlega hefur minnkað töluvert frá árinu 2005 þegar það var um 231 kíló, en árið 2023 var meðaltalið 148 kíló, sem er um 36% minni úrgangur á hvern íbúa!

Árlegt heildarmagn heimilissorps á hvern íbúa (kg)

Sveimaðu yfir grafið til að sjá nánari upplýsingar

Hvað fer í tunnurnar hjá borgarbúum?

Á myndinni má sjá meðalmagn úrgangs á hvern íbúa eftir tegund úrgangs. Í dag fer almennt sorp í gráar tunnur, pappi í bláar, plast í grænar og matarleifar í brúnar tunnur. Enn fer mesta magnið í þær gráu en dregið hefur úr heildarþyngd almenns sorps eftir því sem nýjar flokkunartunnur hafa bæst við hver af annarri og flokkun aukist.

Árlegt magn heimilissorps (kg) á hvern íbúa eftir tegund

Sveimaðu yfir grafið til að sjá nánari upplýsingar

Almennt sorp hlutfallslega minna en áður

Frá árinu 2015 til 2022 var almennt sorp um 83%-85% af heildarmagni úrgangs í Reykjavík. Flokkun matarleifa hefur haft mikil áhrif  á að draga úr magni í gráu tunnunni því almennt sorp var 73% af öllum úrgangi árið 2023 en minnkaði í 55% árið 2024.

Hlutfallsleg skipting úrgangs eftir tegund

Sveimaðu yfir grafið til að sjá nánari upplýsingar