Leikskólar og dagforeldrar

Í Reykjavík eru 84 leikskólar. Þar af eru 68 leikskólar borgarreknir og 16 sjálfstætt starfandi. Til viðbótar eru 5 ára börn í leikskóladeildum tveggja sjálfstætt starfandi grunnskóla. Árleg tölfræði miðast við stöðuna í október hvert ár nema annað sé tekið fram.

Leikskólar

1. október 2023 voru 6.851 börn skráð í leikskóla í Reykjavík. Þar af voru flest börn í borgarreknum leikskólum, eða 5.679 börn. Börn í sjálfstætt starfandi leikskólum voru 1.172 talsins eða 17,1% af heildarfjölda barna í leikskólum árið 2023.

Leikskólabörnum fjölgað undanfarin ár 

Hér sést þróun á fjölda barna í öllum leikskólum í Reykjavík á árunum 2009-2023. Talsverð breyting varð á árunum 2014-2018 þegar leikskólabörnum fækkaði úr 6.784 í 5.948 börn en þá var starfsumhverfi leikskólabarna og starfsfólks bætt og börnum í rými fækkað í nokkrum áföngum. Frá 2018 fjölgaði leikskólabörnum svo aftur vegna fjölgunar leikskólaplássa og voru þau alls 6.851 árið 2023.

Fjöldi barna í leikskólum eftir aldri og árum

Sveimaðu yfir grafið til að sjá nánari upplýsingar


Flest börn eru í leikskólum sem tilheyra Austurmiðstöð

Í Reykjavík eru starfræktar fjórar miðstöðvar sem veita borgarreknum leikskólum fjölbreytta þjónustu. Hvaða miðstöð leikskóli tilheyrir fer eftir því hvaða borgarhluta hann er í. Austurmiðstöð þjónustar flesta borgarhluta, Árbæ, Grafarholt, Norðlingaholt, Úlfarsárdal, Grafarvog og Kjalarnes og því 22 leikskóla. Til samanburðar þjónustar Suðurmiðstöð aðeins Breiðholt þar sem starfræktir eru 11 borgarreknir leikskólar. Á árunum 2009-2023 voru flest börn skráð í borgarrekna leikskóla sem heyra undir Austurmiðstöð. Fæst leikskólabörn tilheyrðu Suðurmiðstöð.

Fjöldi barna í borgarreknum leikskólum eftir miðstöðvum og árum

Sveimaðu yfir grafið til að sjá nánari upplýsingar


Hvað eru leikskólabörn í Reykjavík gömul? 

Leikskólaplássum er úthlutað eftir aldri, það þýðir að elstu börnin fá úthlutað plássum fyrst.  Miðað er við að þau börn sem eru orðin 18 mánaða 1. september ár hvert fái boð í leikskóla það sama haust, því eru fæst börn í aldurshópnum 0-1 árs. Þeim hefur þó fjölgað talsvert á milli ára, eða úr 368 börnum árið 2011 í 763 börn árið 2019. Í öðrum aldurshópum er fjöldi barna í kringum 1.300-1.700 börn sem endurspeglar stærð árganganna.

Fjöldi barna í leikskólum eftir aldri og árum

Sveimaðu yfir grafið til að sjá nánari upplýsingar


Hvað eru mörg börn á biðlista? 

Hér sést aldursdreifing barna á biðlista í borgarreknum leikskólum. Um er að ræða fjölda barna sem eru ekki í öðrum leikskólum í borginni en einhver barnanna á biðlista geta verið með leikskólavistun í öðrum sveitarfélögum eða löndum. Flest börn á biðlista eru á aldrinum 12 til 17 mánaða og flestar umsóknir svokallaðar vistunarumsóknir, en það eru umsóknir barna sem eru ekki í öðrum leikskóla fyrir. Leikskólaplássum er úthlutað í kennitöluröð, þar sem elstu börnin fá boð fyrst. Fá börn eldri en tveggja og hálfs árs eru á biðlista fyrir leikskólapláss, það er helst ef að foreldrar hafa nýlega sótt um pláss fyrir barnið í leikskóla í Reykjavík. Í haust munu 1396 reykvísk leikskólabörn hefja grunnskólagöngu sína. Gögn um biðlista eru frá 2. júní 2024.

Aldursdreifing barna á biðlista í borgarreknum leikskólum

Sveimaðu yfir grafið til að sjá nánari upplýsingar


Hversu mörg vinna í leikskólum borgarinnar? 

1. október 2023 var fjöldi stöðugilda í borgarreknum leikskólum 1.748. Þar af voru 381 menntaðir leikskólakennarar og 266 annað starfsfólk með uppeldismenntun. Hlutfall leikskólakennara af heildarfjölda starfsfólks sem starfar með börnum var því 25,8%. Þegar bætt er við starfsfólki með aðra uppeldismenntun á háskólastigi er hlutfall fagmenntaðra 41,0% af því starfsfólki sem starfa með börnum.

Fjöldi stöðugilda eftir tegund starfs og árum

Sveimaðu yfir grafið til að sjá nánari upplýsingar


Dagforeldrar

Dagforeldrar í Reykjavík vinna mikilvægt umönnunar- og uppeldisstarf og gæta barna allt frá sex mánaða aldri. Dagforeldrar eru sjálfstætt starfandi en fá styrki og niðurgreiðslur frá borginni.

Aðgerðir til styrktar dagforeldrum 

Til að hvetja til nýliðunar í hópi dagforeldra í Reykjavík hafa aðstæður dagforeldra verið bættar undanfarin misseri. Sem dæmi mætti nefna:

  • Hækkun stofnstyrkja til dagforeldra
  • Árlegur aðstöðustyrkur
  • Aukin endurmenntun
  • Aukið aðgengi að leiguhúsnæði fyrir starfsemi dagforeldra
  • Aukin niðurgreiðsla til barna sem náð hafa 18 mánaða aldri

Færri dagforeldrar en áður

Starfandi dagforeldrum hefur fækkað undanfarin ár. Starfandi dagforeldrar í Reykjavík voru flestir 262 árið 2001 og fæstir árið 2023 þegar þeir voru 89. Miðað er við stöðuna 1. október ár hvert.

Fjöldi barna hjá dagforeldri og fjöldi dagforeldra eftir árum

Sveimaðu yfir grafið til að sjá nánari upplýsingar


Þróun á fjölda barna í vistun dagforeldra

Fjöldi barna hjá dagforeldrum fer fækkandi í takt við fækkun dagforeldra. Árið 2013 voru þau 783 en árið 2022 var talan komin niður í 371 börn. Flest börn sem eru í vistun hjá dagforeldrum eru 1 árs árs. Gögnin miða við stöðuna 1. október ár hvert.

Fjöldi barna hjá dagforeldrum eftir árum og aldri barns

Sveimaðu yfir grafið til að sjá nánari upplýsingar

Skóla- og frístundastarf í tölum

Viltu vita meira um skóla og frístund? Skoðaðu mælaborð Skóla- og frístundasviðs.

Leikskólareiknir

Viltu vita meira um leikskóla og biðlista? Reykjavíkurborg býður upp á leikskólareikni þar sem hægt er að fá áætlaða stöðu á biðlista eftir leikskólaplássi.

Um gögnin

Þessi gagnasaga byggir á gögnum frá Skóla- og frístundasviði. Gagnasagan verður uppfærð með nýjum gögnum að minnsta kosti árlega, eða eftir því sem gögn berast. 

Viltu vita meira um leikskóla eða aðra starfsemi borgarinnar? Í Gagnagáttinni getur þú flett upp í opnum gagnasöfnum borgarinnar og hlaðið þeim niður.