Skólaþjónusta

Börn eru jafn ólík og þau eru mörg. Sum börn þurfa á stuðningi að halda til að líða betur og nýta styrkleika sína sem best. Skólaþjónustan veitir börnum, fjölskyldum þeirra og starfsfólki leik- og grunnskóla markvissa ráðgjöf og stuðning, helst sem næst nærumhverfi barnsins.

Fjölbreyttur hópur fagaðila

Ráðgjafar skólaþjónustunnar starfa oftast í miðstöðvum borgarinnar og sumir hverjir hafa einnig fasta viðveru í leik- og grunnskólum. Árið 2024 var algengast að óskað hafi verið eftir aðstoð sálfræðings, en aðstoðar þeirra var óskað fyrir 855 börn.

Fjöldi erinda eftir tegund ráðgjafa

Sveimaðu yfir grafið til að sjá nánari upplýsingar

Erindum hefur fjölgað

Sum börn fá aðstoð frá einum ráðgjafa en önnur börn þurfa aðstoð frá tveimur eða fleiri ráðgjöfum. Á myndinni hér að neðan er því hver ráðgjafi sem óskað er eftir aðstoð frá skilgreindur sem eigið erindi. Sjá má að á tímabilinu 2014 til 2024 fjölgaði erindum um 47,8% á sama tíma og fjöldi barna í Reykjavík jókst einungis um 4,1%. Að hluta til má rekja aukninguna til þess að talmeinafræðingar komu inn í skólaþjónustuna árið 2018 en einnig til COVID-19 faraldursins.

Fjöldi erinda og fjöldi barna með erindi

Sveimaðu yfir grafið til að sjá nánari upplýsingar



Fyrir hvaða aldur er þjónustan?

Skólaþjónustan nær bæði til leik- og grunnskólabarna.

Árið 2024 voru lögð inn erindi til skólaþjónustunnar fyrir 10,5% barna í leikskóla og 7,2% barna í grunnskóla. Þessi hlutföll hafa aukist um 38,2% hjá leikskólabörnum og 52% hjá grunnskólabörnum síðan árið 2019. Í leikskólum voru drengir með 82% fleiri erindi en stúlkur en í grunnskólum var þessi munur 39%.

Hlutfall leikskólabarna með erindi

Sveimaðu yfir grafið til að sjá nánari upplýsingar


Hlutfall grunnskólabarna með erindi

Sveimaðu yfir grafið til að sjá nánari upplýsingar


Helstu ástæður tilvísana

Það eru margar mismunandi ástæður sem liggja að baki hverri tilvísun til skólaþjónustunnar. Þegar tilvísun er send á miðstöð er meginástæða þess að aðstoðar sé óskað gefin upp og þær má sjá á myndunum hér að neðan. Árið 2024 var heildarfjöldi tilvísana hjá stúlkum 1.007 og heildarfjöldi tilvísana drengja var 1.562.

Fimm helstu tilvísunarástæður stúlkna

Sveimaðu yfir grafið til að sjá nánari upplýsingar


Fimm helstu tilvísunarástæður drengja

Sveimaðu yfir grafið til að sjá nánari upplýsingar


Er skólaþjónustan fráviksþjónusta?

Hlutfall barna sem leitar til skólaþjónustunnar segir ekki alla söguna. Meirihluti barna nýtir sér þjónustuna einhvern tíma á skólagöngunni og hlutfallið fer hækkandi milli árganga. Þá fá börn þjónustu fyrr en áður. Sem dæmi var beiðni send fyrir 27,6% barna fæddra 2008 í 1. bekk, en fyrir 47,5% barna fæddra 2018.
Þessi þróun bendir til aukinnar þjónustuþarfar og þá sérstaklega hjá drengjum. Myndin sýnir þróunina á hlutfalli barna í 10. bekk sem hafa fengið þjónustu einhvern tíma á skólagöngunni.

Hlutfall 10. bekkinga sem hafa verið með erindi

Sveimaðu yfir grafið til að sjá nánari upplýsingar


Lausna leitað

Frá árinu 2021 hafa 1.665 börn farið í greiningu eða skimun hjá þjónustumiðstöð. Af þeim fóru 377 í skimun sem leiddi ekki til greiningar og 217 börn fóru í gegnum greiningarferlið án þess að merkjanlegur vandi hafi fundist að því loknu. Þetta þýðir að allavega 594 börn hefðu mögulega getað sloppið við ferlið, sem getur verið ansi tímafrekt, ef gripið hefði verið fyrr inn í.


Lausnateymi 
Í dag eru starfrækt lausnateymi innan allra skóla sem sjá um að kortleggja stöðu barna og leita lausna til stuðnings þeim. Þar eru félagsleg samskipti, hegðun, nám og líðan barna rædd og viðunandi úrræði virkjuð til að bregðast fyrr við erfiðleikum eða aðstæðum barns. Málin geta varðað einstaka börn eða barnahópa í námi þeirra, starfi og leik.